top of page

Fjarheilbrigðisráðgjöf

shutterstock_1780656209.jpg

Stóraukin tíðni lífsstílssjúkdóma gerir það að verkum að sífellt fleiri ná ekki að njóta lífsins til fulls. Við þessu þarf að bregðast og vinna betur í rót vandans. Mikilvægt er að þróa úrræði sem geta spornað við þeirri heilsufarslegu þróun sem breyttur lífsstíll undanfarinna ára og áratuga hefur haft í för með sér.  

 

Ljóst má vera að þörf er á annarri nálgun í heilbrigðiskerfinu, meðfram þeim úrræðum sem til staðar eru. Heilbrigðisráðgjöf sem býður upp á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir heilsubresti er þjónusta sem gæti dregið úr þessum vanda. Markmið fyrirtækisins er að veita fjarheilbrigðisráðgjöf í hæsta gæðaflokki fyrir þá sem vilja minnka hættuna á heilsubresti, lengja líftímann og ekki síst fjölga heilbrigðari og innihaldsríkari æviárum. 

Samsetning þjóðar

shutterstock_469412219.jpg

Samkvæmt opinberum tölum voru tæplega 120 þúsund íbúar landsins 50 ára og eldri árið 2020. Hagstofan gerir ráð fyrir að fjölgun í þessum aldurshópi verði rúmlega 22 þúsund fyrir hver tíu ár næstu þrjá áratugi, þannig að reikna má með að fjöldi þessa hóps verði kominn upp í rúmlega 185 þúsund íbúa eftir þrjátíu ár. Þessari þróun fylgja ýmsar áskoranir sem vert er að leiða hugann að og þá sérstaklega vaxandi þjónustuþörf eldri íbúa landsins. Heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum hvað lífsstílstengda og langvinna sjúkdóma varðar, sem leiðir augljóslega til aukins álags á kerfið.  

 

Þótt margt gott megi segja um heilbrigðiskerfið á Íslandi má ljóst vera að ýmsa hluti má laga og færa nær kröfum nútímans. Þar má til dæmis nefna að aðgengi að heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisráðgjöf og annarri tengdri þjónustu er nokkuð ójafnt milli landshluta. Vísbendingar eru til staðar um að ekki sé öllum landsmönnum tryggt nægilega gott aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu (Heilsufar og heilbrigðisþjónusta, 2021). Gott aðgengi er á höfuðborgarsvæðinu og nokkuð gott á allra stærstu þéttbýlisstöðunum, en fer versnandi eftir því sem lengra er komið frá þéttbýlinu og í dreifðari byggðir (Stjórnarráðið, 2019). Samkvæmt rannsókn sem Embætti landlæknis stóð fyrir 2018 kom einmitt í ljós að íbúar búsettir á landsbyggðinni meta andlega og líkamlega heilsu sína slakari en íbúar á höfuðborgarsvæðinu.Við þessu þarf að bregðast hið fyrsta. 

 

Ef við skoðum aldurshópinn 50 ára og eldri má sjá að meiri fjölgun hefur verið meðal kvenna en karla í hópi örorkulífeyrisþega í þeim hópi. Vitað er að fjölgun örorkulífeyrisþega helst í hendur við hækkandi aldur, en áhugavert er að sjá að algengustu sjúkdómsgreiningar meðal þeirra sem eru með 75% örorku- og endurhæfingarmat árið 2018 voru geðraskanir, 39,4%  og stoðkerfisvandamál, 26,5%.

bottom of page